Jean-Pierre de Caussade
1675-1751

Þrotlaust starf hins himneska vilja færir okkur á sérhverju andartaki ómetanleg gæði sem við þiggjum í réttu hlutfalli við trú okkar og ást.

Ef hvert andartak gæti opinberað okkur vilja Guðs myndi hjartað finna þar allt sem það þráir. Því hvað er skynsamlegra, fullkomnara og himneskara en vilji Guðs? Er takmarkalaust ríkidæmi hans bundið við stund eða stað? Væri þér gefin sú dulargáfa að sjá þetta ríkidæmi á hverju andataki í sérhverjum atburði, myndir þú eignast allt það besta og dýrmætasta sem þú þráir.

Sérhvert andartak ber ævinlega í sér takmarkalausa auðlegð. Það færir þér miklu meira en þú getur rúmað eða borið. Trúin er mælikvarðinn: því heitar sem hjartað elskar, þeim mun meira þráir það og því meira sem það þráir þeim mun meira er því gefið. Vilji Guðs birtist á hverju andartaki eins og voldugt úthaf sem þrá hjarta þíns getur ekki tæmt, en hjartað fær þann skerf af þessu úthafi sem það getur rúmað í trú sinni, trausti og ást. Alheimurinn með öllu sem í honum er getur ekki mettað hjartað því það rúmar meira en allt sem ekki er Guð. Fjöllin sem eru ógurleg í augum þínum eru sem örsmáar agnir fyrir hjartanu. Vilji Guðs er hyldýpi sem opnast þér á sérhverju andartaki. Láttu þig falla í þetta hyldýpi og þú munt komast að raun um að það er dýpra en allar þrár þínar. Reyndu ekki að koma þér í mjúkinn hjá nokkrum mann, tignaðu ekki tálsýnir - þær geta hvorki auðgað þig né gert þig fátækan. Aðeins vilji Guðs getur veitt fyllingu og hann skilur ekki eftir sig tóm; tignaðu þann vilja, farðu rakleiðis til hans, gerþekktu hann og snúðu baki við öllum ytri birtingum. Ríki trúarinnar er grundvallað á eyðingu og dauða skynvitanna, því skynvitin tigna hið skapaða en trúin tignar vilja Guðs. Taktu skurðgoðin frá skynvitunum og þau munu gráta eins og örvílnuð börn, en trúin hrósar sigri því hana er ekki hægt að aðskilja vilja Guðs. Þegar atburðir líðandi stundar ráðast gegn skynvitunum, svelta þau og valda þeim ógn, einmitt þá næra þeir trúna, auðga hana og endurlífga og hún hlær sigri hrósandi að tjóni skynvitanna eins og herforingi í rammgerðu virki hlær að gagnslausum áhlaupum.

Þegar vilji Guðs hefur opinberast sálinni og kennt henni að Guð er reiðubúinn að gefa sig fullkomlega ef sálin að sínu leyti er reiðubúin til uppgjafar, veit hún undir öllum kringumstæðum að hún nýtur voldugrar aðstoðar. Frá þeirri stund þekkir hún fögnuðinn yfir komu Guðs og hún nýtur hans enn betur þegar hún skilur í reynd þá sjálfsuppgjöf sem henni ber að temja sér á hverju andartaki gagnvart þeim aldýrlega og undursamlega vilja.