Eining og samskipti

Þar sem þessi efnislega umgjörð (líkaminn) er hásæti hins innra musteris, skynjar það síðarnefnda allt sem kemur fyrir hið fyrrnefnda. Í rauninni er það innra musteri líkamans sem gleðst í hamingju eða hryggist í sársauka, ekki líkaminn sjálfur. Þar sem þessi efnislegi líkami er hásæti hins innra musteris, hefur Guð ákvarðað að varðveita skuli líkamann eins og unnt er, svo að enginn megi kenna óbeitar.
Bábinn, Selections from the Writings of the Báb, bls 95

Ávextirnir á tré tilverunnar eru áreiðanleiki, hollusta, sannsögli og hreinleiki. Þegar maðurinn hefur borið kennsl á einingu Guðs, upphafinn sé hann, er mikilvægasta skylda hans sú að sýna rétti foreldra sinna tilhlýðilega virðingu. Um þetta hefur verið fjallað í öllum bókum Guðs.
Bahá’u’lláh, tilvitnun í samantekt um Fjölskyldulíf, frá janúar 1982, sent frá Allsherjarhúsi réttvísinnar til andlegra þjóðarráða

Sameining og samneyti hafa alltaf verið þóknanleg frammi fyrir Guði, en aðskilnaður og ágreiningur er andstyggð í augum hans. Haldið því fast við það sem Guð elskar og hefur boðið ykkur. Hann er vissulega hinn alvísi og alsjáandi og hann er hinn alvitri ákvarðandi.
Bahá’u’lláh, tilvitnun í samantekt frá 18. jan. 1980, sem Allsherjarhús réttvísinnar sendi Andlegum þjóðarráðum

Hegðið yður hver gagnvart öðrum í fyllstu ást og samstillingu, vináttu og eindrægni. Hann sem er sól sannleikans ber mér vitni! Svo öflugt er ljós einingarinnar að það getur uppljómað alla jörðina. Hinn eini sanni Guð sem þekkir alla hluti, ber sjálfur vitni þessum orðum.
Bahá’u’lláh, Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, bls. 288

Eftir að maðurinn hefur viðurkennt Guð og fengið staðfestu í málstað hans er staða ástúðar, samræmis, samlyndis og einingar æðri flestum öðrum góðum verkum. Þessu hefur hann sem er þrá heimsins borið vitni á hverjum morgni og hverju kvöldi. Guð gefi að þér megið halda fast við það sem hefur verið opinberað í Kitáb-i-Aqdas.
Bahá’u’lláh, tilvitnun í samantekt frá 18. jan. 1980, sem
Allsherjarhús réttvísinnar sendi Andlegum þjóðarráðum

Þegar sálirnar verða sannir átrúendur komast þær jafnframt í andlegt samband hver við aðra og auðsýna blíðu sem ekki er af þessum heimi. Þær verða allar himinlifandi af berging guðdómlegrar ástar og sú sameining þeirra, þessi tengsl, eru einnig eilíf. Með öðrum orðum: sálir sem gleyma eigin sjálfi, leysa sig frá ágöllum mannkyns og brjóta af sér hlekki þessa hverfula heims, uppljómast án nokkurs vafa dýrð einleikans og öðlast sanna einingu í þeim heimi sem aldrei deyr.
‘Abdu’l-Bahá, Selections from the
Writings of ‘Abdu’l-Bahá, bls. 117-118

Ástin milli hjartna átrúendanna er sprottin af fullkominni einingu andanna. Þessi ást fæst með þekkingu á Guði, svo að menn sjá hina guðdómlegu ást endurspeglast í hjartanu. Hver og einn sér fegurð Guðs endurspeglast í annarri sál og þegar hann skynjar þennan sameiginlega þátt, laðast þær hver að annarri í ást. Þessi ást gerir alla menn að öldum á einu hafi, þessi ást gerir þá að stjörnum eins himins og ávöxtum sama trés. Þessi ást gerir að veruleika sanna samstillingu, grundvöll raunverulegrar einingar.
En ástin sem stundum er milli vina er ekki (sönn) ást því hún er breytingum undirorpin; hún er aðeins stundarhrifning. Hin grönnu tré sveigjast fyrir andvaranum. Sé vindurinn austanstæður sveigist tréð í vestur, í vestanátt sveigist það í austur. Slík ást sprettur af hverfulleika lífsins. Hún er ekki ást heldur aðeins kunningsskapur, því hún er háð breytingum.
Í dag sjáið þið tvær sálir sem virðast nánir vinir, á morgun kann allt að vera breytt. Í gær voru þær reiðubúnir að deyja hvor fyrir aðra, í dag forðast þær hvor aðra! Þetta er ekki ást heldur undanlátssemi hjartans gagnvart tilviljunum lífsins. Þegar það sem vakti þessa "ást" er horfið, hverfur ástin sömuleiðis; slík ást er ekki sönn.
‘Abdu’l-Bahá, Paris Talks, bls. 180-181

Ó þú sonur konungsríkisins! Með ást Guðs er allt sem maðurinn tekur sér fyrir hendur gagnlegt, en vinni hann verk sín án Guðs ástar eru þau skaðleg og mynda blæju milli hans og Drottins konungsríkisins. En með ást Guðs verður öll beiskja sæt og sérhver gjöf dýrmæt. Til dæmis færir tónelsk og lagvís rödd heilluðu hjarta líf en leiðir í freistingu þær sálir sem brenna af ástríðu.
‘Abdu’l-Bahá, tilvitnun í Bahá’í World Faith, bls. 366

Tilgangurinn með komu spámannanna og opinberun hinna helgu bóka er að skapa ást milli sálna og vináttu milli íbúa jarðarinnar. Raunveruleg ást er útilokuð nema maðurinn snúi ásýnd sinni til Guðs og laðist að fegurð hans.

‘Abdu’l-Bahá, tilvitnun í Bahá’í World Faith, bls 364


Þegar þér elskið meðlim fjölskyldu yðar eða samlanda, elskið hann með geisla takmarkalausrar ástar! Látið þá ást vera í Guði og fyrir Guð! Hvar sem þið finnið eigindir Guðs, elskið þá persónu hvort sem hún tilheyrir yðar eigin fjölskyldu eða annarri. Úthellið ljósi óendanlegrar ástar yfir sérhverja manneskju sem þér mætið...

‘Abdu’l-Bahá, Paris Talks, bls. 38


Ég hvet hvern og einn yðar til að beina hugsunum hjarta síns að ást og einingu ... Hugsun um ást stuðlar að bræðralagi, friði, vináttu og hamingju.

‘Abdu’l-Bahá, Paris Talks, bls 28


Vit með vissu að ástin er leyndardómur heilags trúarkerfis Guðs, birting hins almiskunnsama, brunnur andlegrar úthellingar. Ást er gæskuríkt ljós himinsins, eilífur andi heilags anda sem lífgar mannssálina. Ástin er orsök þess að Guð opinberar sig mönnum, hin nauðsynlega tenging sem er byggð inn í veruleika hlutanna samkvæmt guðlegri sköpun. Ástin er tækið sem tryggir sanna hamingju bæði í þessum heimi og hinum næsta. Ástin er ljósið sem lýsir í myrkrinu, sá lifandi hlekkur sem tengir saman Guð og mann og tryggir framþróun sérhverrar upplýstrar sálar.

‘Abdu’l-Bahá, tilvitnun í Bahá’í
World, II. bindi bls 50

Í hvert sinn sem þú kemur auga á galla í fari annarra leiddu hugann að sjálfum þér: hvaða þættir eru ófullkomnir í mínu fari? Reyndu að ryðja þeim úr vegi. Gerðu þetta í hvert sinn sem á þig reynir vegna orða og athafna annarra. Á þann hátt getur þú vaxið, orðið fullkomnari. Þú munt sigrast á sjálfi þínu, þú færð ekki einu sinni tíma til að hugsa um ágalla annarra ...

‘Abdu’l-Bahá, Star of the West, 8. árg. nr. 10