Bahá'u'lláh:

Endurkoma Krists og táknmál Guðspjallanna

Úr Kitáb-i-Iqán - Bók fullvissunnar


Þeim sem hafa skilning er ljóst að þegar eldur ástar Jesú eyddi blæjum gyðinglegra takmarkana og vald hans var opinberað og að nokkru leyti framfylgt vísaði hann, opinberandi hinnar ósýnilegu fegurðar, til dauða síns þegar hann dag nokkurn ávarpaði lærisveina sína. Hann glæddi í hjörtum þeirra eld saknaðar og sagði við þá: ,,Eg fer burt og kem aftur til yðar.“ Og á öðrum stað sagði hann: ,,Eg fer og annar kemur sem mun segja yður allt sem ég hef ekki sagt yður og uppfylla það sem ég hef sagt.“ Þessi orð eru einnar og sömu merkingar þú hugleiðir opinberendur einingar Guðs með guðlegu innsæi.

Sérhver skilningsríkur áhorfandi sér að í trúarkerfi Kóransins er sannleiksgildi bókarinnar og málstaður Jesú staðfestur. Hvað nöfnum viðvíkur hefur Múhammeð sjálfur sagt: ,,Ég er Jesús.“ Hann skildi sannleika táknanna, spádómanna og orða Jesú og vitnaði um að allt væri þetta frá Guði. Í þessum skilningi hefur enginn munur verið á persónu Jesú og ritningum hans annarsvegar og á Múhammeð og hans helgu bók hinsvegar því að báðir hafa barist fyrir málstað Guðs, vegsamað hann og opinberað boð hans. Því sagði Jesús sjálfur: ,,Ég fer burt og kem aftur til yðar.“ Íhugið sólina. Ef hún segði nú: ,,Ég er sól gærdagsins,“ þá segði hún sannleikann. Og ef hún með tilliti til tímaraðar segðist vera önnur sól, segði hún líka sannleikann. Á sama hátt væri það rétt og satt ef því væri haldið fram að allir dagar væru einn og sami dagurinn. Og ef sagt væri með hliðsjón af sérstökum nöfnum þeirra og táknum, að þeir væru ólíkir hver öðrum væri það líka sannleikur. Því að þótt þeir séu einn og sami dagur hefur hver og einn þeirra mismunandi heiti, sérstakar eigindir og einkenni. Hugleið ennfremur þau auðkenni, tilbrigði og einingu sem einkennir ýmsa opinberendur heilagleikans til þess að þú megir skilja tilvísanir skapara allra nafna og eiginda til leyndardóma auðkenna og einingar og finna svarið við spurningu þinni um hversvegna þessi eilífa fegurð skuli á ýmsum tímum hafa nefnt sig ýmsum nöfnum og titlum.

Síðar spurðu félagar og lærisveinar Jesú um þau tákn sem boða áttu endurkomu hans. Hvenær, spurðu þeir, munu þessir hlutir gerast? Þessa spurningu lögðu þeir oftsinnis fyrir hina óviðjafnanlegu fegurð og í hvert sinn svaraði hann og setti fram sérstakt tákn sem átti að boða komu hins fyrirheitna trúarkerfis. Þessu bera vitni guðspjöllin fjögur. Þessi rangtleikni ætlar aðeins að nefna eitt þessara dæma og færa þannig mannkyni sakir Guðs þær náðargjafir sem enn eru faldar í hirslu hins hulda og helga trés svo að dauðlegir menn þurfi ekki að fara varhluta af sínum skerfi í ávextinum eilífa og megi höndla dropa af vötnum eilífs lífs sem frá Bagdað, ,,híbýlum friðarins“, eru færð öllu mannkyni. Vér biðjum hvorki um umbun né endurgjald. ,,Vér nærum sálir yðar sakir Guðs; vér leitum hvorki endurgjalds né þakklætis frá yður.“1 Þetta er fæðan sem færir hinum hjartahreinu og upplýstu í anda eilíft líf. Þetta er brauðið sem sagt er um: ,,Drottinn, sendu okkur brauð þitt af himni.“2 Þessu brauði verður aldrei haldið frá þeim sem eiga það skilið og það getur aldrei gengið til þurrðar. Það vex eilíflega á tré náðarinnar; það stígur niður á öllum árstímum frá himnum réttlætis og náðar. Því sagði hann: ,,Veist þú ekki við hvað Guð líkir góðu orði? Við gott tré; rætur þess eru jarðfastar, greinar þess teygja sig til himins og bera ávexti á öllum árstímum.“3 [........]

Í fyrsta guðspjallinu, Matteusar-guðspjalli, stendur skrifað: ,,Og þegar þeir spurðu Jesúm hver tákn komu hans væru, sagði hann við þá: ,En þegar eftir þrenging 4 þessara daga mun sólin sortna og tunglið eigi gefa skin sitt og stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna munu bifast. Og þá mun tákn manns-sonarins sjást á himninum; og þá munu allar kynkvíslir jarðarinnar kveina og þær munu sjá mannssoninn komandi á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð. Og hann mun senda út engla sína með hljómsterkum lúðri.‘ “5 Á persneskri tungu 6, er merking þessara orða sem hér segir: Þegar þrengingin og þjáningarnar sem munu koma yfir mannkynið birtast, hættir sólin að gefa birtu sína og tunglið ljós sitt, stjörnur himinsins munu hrapa á jörðina og undirstöður jarðarinnar bifast. Á þeim tíma birtist tákn mannssonarins á himnum, þ.e.a.s. hin fyrirheitna fegurð og fæða lífsins mun að þessum táknum uppfylltum stíga út úr ríki hins ósýnilega inn í hinn sýnilega heim. Og hann segir: Á þeim tíma munu allar þjóðir og kynkvíslir sem búa á jörðunni, kveina og barma sér og þær sjá hina guðdómlegu fegurð koma á skýjum frá himnum með valdi, tign og mikilleika, sendandi út engla sína með miklum lúðrahljómi. Þessi sömu orð eru skráð með sama hætti í hinum þremur guðspjöllum Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar. Þar sem vér höfum vitnað til þeirra í löngu máli í töflum vorum á arabísku, nefnum vér þær ekki á þessum síðum og takmörkum oss við aðeins eina tilvitnun.

Þar sem kristnir guðsmenn hafa ekki skilið merkingu þessara orða, skynjuðu ekki tilgang þeirra og markmið og héldu fast við bókstaflega túlkun á orðum Jesú, fóru þeir á mis við náðarúthellingu opinberunar Múhammeðs og gnótt gjafa hennar. Hinum fávísu innan vébanda hins kristna samfélags sem fylgdu fordæmi trúarleiðtoga sinna var einnig meinað að líta fegurð konungs dýrðarinnar, því að þau tákn sem áttu að fylgja sólarupprás múhammeðska trúarkerfisins rættust í rauninni ekki. Þannig hafa aldir liðið og hinn hreinasti andi hefur horfið til athvarfs fornra yfirráða sinna. Enn einu sinni hefur andinn eilífi blásið í hinn dulræna lúður og kallað hina dauðu upp úr gröfum gáleysis og villu til ríkis leiðsagnar og náðar. Og samt hrópar þetta eftirvæntingarfulla samfélag: Hvenær gerast þessir hlutir? Hvenær mun hinn fyrirheitni, sá sem við bíðum eftir, opinberast svo við megum rísa upp til sigurs fyrir málstað hans, gefa eigur okkar fyrir hans sakir, fórna lífi okkar á vegi hans? Á sama hátt hafa fánýtar ímyndanir á borð við þessar orðið til þess að önnur samfélög villtust frá Kawthar (fljóti Paradísar) óendanlegrar náðar forsjón-arinnar, upptekin að sínum eigin fánýtu hugarórum. Auk þessa kafla er önnur ritningargrein í guðspjöllunum þar sem hann segir: ,,Himinn og jörð munu líða undir lok; en mín orð munu alls ekki undir lok líða.“7 Þessvegna héldu fylgjendur Jesú því fram að lög guðspjallanna yrðu aldrei numin úr gildi og að ætíð þegar hin fyrirheitna fegurð birtist og öll táknin opinberuðust yrði hann að staðfesta og grundvalla á ný lögin sem eru kunngerð í guðspjöllunum til þess að heimurinn mætti ekki þekkja neina trú aðra en hans. Þetta er grundvöllur trúarbragða þeirra. Og slík er sannfæring þeirra að ef einhver kæmi fram með öllum þessum fyrirheitnu táknum og kunngerði eitthvað sem bryti í bága við lagabókstaf guðspjallanna mundu þeir vissulega hafna honum, neita að lúta lögum hans, lýsa hann trúvilling og spotta hann. Þetta kom í ljós þegar sól opinberunar Múhammeðs rann upp. Hefðu þeir með auðmjúkum huga spurt opinberanda Guðs í sérhverju trúarkerfi um sanna merkingu orðanna sem birtast í hinum helgu bókum hefðu þeir vissulega verið leiddir inn í sólarljós sannleikans og uppgötvað leyndardóma guðdómlegrar þekkingar og visku. Misskilningur á þessum orðum hefur svift mennina viðurkenningu á Sadratu’l-Muntahá (opinberandanum) [....]

Hvað varðar orðin: ,,Þegar eftir þrengingu þeirra daga“ — þá vísa þau til þess tíma er mennirnir verða þjáðir og aðþrengdir, þegar síðustu geislarnir frá sól sannleikans og ávöxturinn af tré þekkingar og visku eru horfnir frá mönnum, þegar mannkynið lýtur stjórn hinna fávísu og fáfróðu, þegar hlið himneskrar einingar og skilnings — innsta og hæsta markmið sköpunarinnar — hafa lokast, þegar hégómlegar ímyndanir eru komnar í stað vissrar þekkingar og spilling situr í hásæti réttlætis. Slíkt er ástand mála í dag þegar fávísir leiðtogar hafa í hendi sér stjórntauma sérhvers samfélags og stýra því samkvæmt
eigin hneigð og geðþótta. Minning Guðs er nafnið tómt á vörum þeirra; fyrir þeim er heilagt orð hans dauður bókstafur. Slíkt er áhrifavald ástríðna þeirra, að slokknað hefur á lampa samvisku og skynsemi í hjörtum þeirra og það þótt fingur himnesks afls hafi opnað hlið þekkingar Guðs og ljós himneskrar þekkingar og guðlegrar náðar hafi upplýst og innblásið innsta kjarna allra skapaðra hluta — og það í þeim mæli að dyr þekkingar að öllum hlutum hafa opnast og vottur af sólinni birst í sérhverri öreind. Og þrátt fyrir allar þessar margvíslegu opinberanir guðlegrar þekkingar sem hafa umlukið heiminn ímynda þeir sér í hégómleik sínum að dyr þekkingar séu lokaðar og regn miskunnar sé hættar að falla. Í fastheldni við hégómlegar ímyndanir hafa þeir villst langt frá ‘Urvatu’l-Vuthqá 8 himneskrar þekkingar. Hjörtu þeirra virðast ekki hneigjast til þekkingar og dyra hennar né heldur huga þeir að birtingum hennar, því í fánýtri ímyndun hafa þeir fundið dyr að jarðneskum auðæfum en í opinberanda þekkingar sjá þeir aftur á móti ekkert nema hvöt til sjálfsfórnar. Þeir halda því vitaskuld fast við hið fyrra og flýja hið síðara. Þótt þeir viðurkenni í hjarta sínu að lög Guðs eru ein og hin sömu, gefa þeir úr öllum áttum út nýjar tilskipanir og á hverri árstíð láta þeir útganga ný boð. Meðal þeirra er hvergi að finna tvo menn sem eru sammála um ein og sömu lögþví þeir leita einskis Guðs nema sinna eigin langana og feta enga stigu nema stigu villunnar. Í forystu hafa þeir fundið sitt helsta takmark, stolt og hroki eru æðsta uppfylling óskanna í hjörtum þeirra. Þeir hafa sett auvirðileg vélabrögð sín ofar guðlegri ákvörðun, hafnað undirgefni undir vilja Guðs, verið uppteknir af eiginhagsmunum og gengið vegu hræsnarans. Þeir reyna af öllum sínum mætti að tryggja sjálfa sig í lítilmótlegri eftirsókn sinni, fullir ótta við minnsta vott vantrausts sem gæti grafið undan myndugleika þeirra eða varpað skugga á mikilleika þeirra. Ef augað væri smurt og upplýst með smyrsli þekkingar Guðs sæi það vissulega hvernig fjöldi gráðugra villidýra hefur safnast saman og bíður færis á hræjunum af sálum mannanna. Hvaða ,,þrenging“ er meiri en sú sem hér hefur verið greint frá? Hvaða ,,þrenging“ er hörmulegri en sú, að sál sem leitar sannleikans og vill öðlast þekkingu á Guði skuli ekki vita frá hverjum eða hvar hennar skuli leitað? Því að sundrung hefur magnast og leiðirnar til að ná til Guðs hafa margfaldast. Þessi ,,þrenging“ er höfuðeinkenni sérhverrar opinberunar. Ef hún birtist ekki kemur sól sannleikans ekki í ljós. Því árdagsljómi guðlegrar leiðsagnar kemur í kjölfar dimmrar nætur villunnar. Þessvegna er í öllum annálum og arfsögnum skírskotað til þessara hluta, þ.e. að ójöfnuður muni hylja yfirborð jarðarinnar og myrkrið umlykja mannkynið. Þar sem arfsagnirnar sem vísað er til eru vel þekktar og þessi þjónn vill vera stuttorður mun hann ekki vitna til texta þessara arfsagna. [.......]

Og íhuga nú þessi orð hans: ,,Sólin mun sortna og tunglið ekki gefa skin sitt og stjörnurnar hrapa af himni.“ Með orðunum ,,sól“ og ,,tungl“ sem notuð er í ritningum spámanna Guðs er ekki aðeins átt við sól og mána hins sýnilega alheims. Nei, þeir hafa gætt þessi orð margvíslegum merkingum. Í sérhverju tilviki hafa þeir gefið þeim ákveðna þýðingu. Þannig er með ,,sól“ í einum skilningi orðsins átt við þær sólir sannleikans sem rísa frá dagsbrún fornrar dýrðar og fylla veröldina af gjafmildi sinni náðarútstreymi af hæðum. Þessar sólir sannleikans eru allsherjarbirtingar Guðs í heimum eiginda hans og nafna og gegna sama hlutverki og hin sýnilega sól sem fyrir ákvörðun Guðs, hins sanna, hins dáða, stuðlar að þroska allra jarðneskra fyrirbrigða, svo sem trjánna og ávaxtanna og litbrigða þeirra, steinefna jarðar og alls sem augað sér í heimi sköpunarinnar. Þannig koma hinir guðlegu ljósgjafar því til vegar með ástríki sínu og þroskandi áhrifum að tré guðlegrar einingar, ávöxtur eindar hans, lauf andlegrar lausnar, blóm þekkingar og fullvissu og myrtur visku og máls birtast og lifna. Þessvegna endurnýjast heimurinn við upprás þessara ljósgjafa Guðs, vötn eilífs lífs streyma fram, öldur ástríkis rísa, ský náðar hnappast saman og andblæ gjafmildi andar yfir alla hluti skapaða. Hitinn sem þessar sólir Guðs gefa frá sér og þeir ódeyjandi eldar sem þær kveikja valda því að ljós ástar Guðs skín skært í hjörtum mannkynsins. Fyrir ríkulega náð þessara tákna aðskilnaðar er anda eilífs lífs blásið í líkama hinna dauðu. Vissulegu er hin sýnilega sól aðeins tákn um dýrð þessarar sólar sannleikans; ljósgjafa sem engan jafningja getur átt, enga líkingu eða keppinaut. Allt sem til er lifir, hrærist og hefur verund sína fyrir atbeina hans. Það birtist fyrir náð hans og til hans snýr það aftur. Frá honum eru allir hlutir komnir og til hirslna opinberunar hans hafa þeir allir horfið aftur. Frá honum kom allt sem skapað er og til hirslna laga hans hverfur það aftur. Að þessar guðlegu sólir virtust stundum háðar sérstökum titlum og eigindum eins og þú hefur séð og sérð enn, er ekki neinu að kenna nema ófullkomnum og takmörkuðum skilningi vissra huga. Annars eru þeir ævinlega og munu um alla eilífð vera upphafnir yfir alla vegsömun og helgaðir frá sérhverri eigind sem gæti lýst þeim. Innsti kjarni allra nafna getur ekki vænst þess að fá inngöngu í hirð heilagleika þeirra og hin æðsta og hreinasta allra eiginda getur aldrei nálgast dýrðarríki þeirra. Ómælanlega hátt eru spámenn Guðs hafnir yfir skilning manna sem geta aldrei þekkt þá nema í gegnum þeirra eigin sjálf. Fjarri sé það dýrð hans, að hægt sé að mikla hans útvöldu með nokkru öðru en þeirra eigin persónum. Dýrlegir eru þeir ofar lofgjörð manna; upphafnir yfir mannlegan skilning! [.......]

Í öðrum skilningi er með þessum orðum átt við guðsmenn fyrri trúarkerfa sem lifa á dögum síðari opinberanna og veita trúarbrögðunum forystu. Ef þessir guðsmenn eru upplýstir af ljósi síðari opinberunar verða þeir þóknanlegir Guði og stafa frá sér eilífu ljósi. Að öðrum kosti eru þeir nefndir myrkvaðir, jafnvel þótt þeir séu á ytra borði leiðtogar manna, því að trú og vantrú, leiðsögn og villa, hamingja og auðnuleysi, ljós og myrkur, er allt háð leyfi hans sem er sól sannleikans. Hver sá á meðal guðsmanna sérhverrar aldar sem á degi reikningsskilanna fær vitnisburð trúar frá uppsprettu sannrar þekkingar þiggur vissulega lærdóm, guðlegri hylli og ljós sanns skilnings. Að öðrum kosti hefur hann opinberlega gert sig sekan um flónsku, afneitun, guðlast og kúgun.

Það er ljóst hverjum skilningsríkum áhorfanda, að líkt og ljós stjörnunnar bliknar fyrir geisladýrð sólarinnar, þannig verða sólir jarðneskrar þekkingar, visku og skilnings að engu andspænis geisladýrð Dagstjörnu sannleikans, sól guðlegrar upplýsingar. Að orðið ,,sól“ skuli hafa verið notað um trúarleiðtoga stafar af upphafinni stöðu þeirra, frægð og orðstír. Slíkir eru hinir almennt viðurkenndu guðsmenn hverrar aldar sem mæla af myndugleika og byggja orðstír sinn á traustum grunni. Ef þeir líkjast sól sannleikans teljast þeir vissulega meðal hinna upphöfnustu allra ljósgjafa; að öðrum kosti verður litið á þá sem miðdepla vítiselds. Eins og hann sagði: ,,Vissulega eru bæði sól og máni dæmd til að þjást í vítiseldi.“9 Þú ert vafalaust kunnugur túlkun orðanna ,,sól“ og ,,máni“ sem nefnd eru í þessu versi; þessvegna er engin þörf á að vitna frekar til þess. Og hver sá sem er af efni þessarar ,,sólar“ og þessa ,,mána“, þ.e. fylgir fordæmi þessara leiðtoga með því að játast falsi og snúa baki við sannleikanum, hann kemur án nokkurs vafa úr myrkri vítis og hverfur þangað aftur. [.....]

Í öðrum skilningi er með orðunum ,,sól“, ,,máni“ og ,,stjörnur“ átt við þau lög og kenningar sem hafa verið grundvallaðar og kunngerðar í sérhverju trúarkerfi, svo sem lög um bænir og föstu. Þegar fegurð Múhammeðs spámanns hvarf sýnum voru þessi lög, að boði Kóransins, talin hin veigamestu og þungvægustu af lögum trúarkerfis hans. Þessu bera textar arfsagnanna og annálanna vitni. Ekki þarf að vitna til þeirra hér vegna þess hve þekktar þær eru. Nei, áhersla hefur öllu fremur verið lögð á bænalögin í sérhverju trúarkerfi og þeim hvarvetna framfylgt. Þessu bera vitni skráðar arfsagnir sem eru eignaðar geislunum frá sól sannleikans, kjarna Múhammeðs spámanns.

Arfsagnirnar staðfestu þá staðreynd, að í öllum trúarkerfum hafa bænalögin verið grundvallarþáttur í opinberunum allra spámanna Guðs. Form þeirra og háttur hefur verið aðlagaður breytilegum þörfum sérhverrar aldar. Þar sem sérhver síðari opinberun hefur numið úr gildi siði, venjur og kenningar sem voru augljóslega, sérstaklega og tryggilega grundvallaðar í fyrri trúarkerfum, hefur þeim á táknrænan hátt verið lýst með orðunum ,,sól“ og ,,máni“. ,,Að hann mætti reyna yður, hver yðar bæri af í gerðum.“10 Auk þess hafa orðin ,,sól“ og ,,máni“ í arfsögnunum verið notuð um bæn og föstu, líkt og sagt er: ,,Fasta er upplýsing, bæn er ljós.“ [....]

Því er auðsætt að með orðunum ,,sólin mun sortna og tunglið ekki gefa skin sitt og stjörnurnar hrapa af himni“ er átt við villu guðsmannanna og ógildingu laga sem hafa verið tryggilega grundvölluð með guðlegri opinberun. Opinberandi Guðs hefur sagt allt þetta fyrir á táknrænu máli. Engir nema hinir réttlátu munu bergja á þessum bikar; engir nema hinir guðlegu fá skerf af honum. ,,Hinir réttlátu skulu drekka af bikar sem er tempraður við Kamfórubrunninn.“11

Það verður ekki dregið í efa að í hverri nýrri opinberun myrkvast ,,sól“ og ,,máni“ kenninga, laga, boða og banna sem hafa verið grundvölluð í undanfarandi trúarkerfi og yfirskyggt menn þeirrar aldar — þ.e. þau eru slokknuð og hafa ekki lengur áhrif. Íhuga nú: Ef fylgjendur guðspjallanna hefði skilið táknræna merkingu orðanna ,,sólar“ og ,,mána“; ef þeir hefðu, andstætt hinum vegvilltu og öfugsnúnu, leitað upplýsingar frá honum sem er opinberandi himneskrar þekkingar, hefðu þeir vissulega skilið tilgang þessara orða og ekki þjáðst og kvalist í myrkri eigingjarnra ástríðna sinna. En þar eð þeim tókst ekki að afla sér sannrar þekkingar frá sjálfri uppsprettunni hafa þeir tortímst í hættulegum dal villu og vantrúar. Þeir hafa ekki ennþá vaknað og skilið að öll fyrirheitnu táknin hafa verið opinberuð, að hin fyrirheitna sól hefur risið yfir sjónhring guðlegrar opinberunar og að ,,sól“ og ,,máni“ kenninga, laga og lærdóms fyrri trúarkerfa hafa sortnað og hnigið til viðar.

Og nú hvað varðar orð hans: ,,Og síðan munu kynkvíslir jarðarinnar kveina og þær munu sjá mannssoninn komandi á skýjum himinsins með mætti og mikilli dýrð.“ Þessi orð tákna að á þeim dögum munu menn kveina yfir missi sólar guðlegrar fegurðar, tungls þekkingar og stjarna guðlegrar visku. Síðan munu þeir líta ásýnd hins Fyrirheitna, hinnar vegsömuðu fegurðar, stíga frá himnum og koma í skýjunum. Þetta táknar að hin guðlega fegurð verður birt frá himni vilja Guðs og kemur í formi mannlegs musteris. Orðið ,,himinn“ táknar hátign og upphafningu, því hann er sá staður þar sem opinberendur heilagleikans, sólir aldinnar dýrðar, opinberast. Þótt þessar fornu verur komi úr móðurkviði hafa þær í raun stigið niður frá himni vilja Guðs. Þótt þær dvelji á þessari jörðu eru sönn híbýli þeirra athvarf dýrðar í ríkjunum hið efra. Þótt þær gangi á meðal dauðlegra manna svífa þær á himnum guðlegrar nálægðar. Án fóta ganga þær stigu andans og án vængja rísa þær upp til háleitra hæða guðlegrar einingar. Á sérhverju hraðfleygu andartaki spanna þær ómælanleik geimsins. Í hverri andrá ferðast þær um ríki hins sýnilega og ósýnilega. Á hásæti þeirra stendur skrifað: ,,Ekkert hindrar hann í að vera upptekinn af einhverju öðru.“12 Og á sess þeirra eru letruð orðin: ,,Sannlega, nýjar leiðir fer hann á hverjum degi.“ Þær eru sendar út með yfirskilvitlegu afli hins aldna og eru reistar upp af upphöfnum vilja Guðs, hins máttugasta konungs. Þetta er það sem átt er við með ,,komunni í skýjum himinsins.“

Í máli hinna guðlegu ljósgjafa hefur orðið ,,himinn“ verið notað um marga og fjölbreytilega hluti; t.d. ,,himinn skipunar“, ,,himinn vilja“, ,,himinn guðlegs áforms“, ,,himinn guðlegrar þekkingar“, ,,himinn fullvissu“, ,,himinn máls“, ,,himinn opinberunar“, ,,himinn dular“, o.s.frv. Í hverju tilviki notar hann orðið ,,himinn“ í ákveðinni merkingu. Þýðing hennar er ekki opinberuð neinum nema þeim sem eru innvígðir í guðlega leyndardóma og hafa drukkið af kaleik ódauðlegs lífs. Hann segir til dæmis: ,,Himininn hefur fæðu fyrir þig og geymir það sem þér hefur verið lofað.“13; jafnvel þótt það sé jörðin sem gefi slíka fæðu.

Ennfremur hefur verið sagt: ,,Nöfnin koma frá himnum“, þótt þau komi af vörum manna. Ef þú hreinsaðir spegil hjarta þíns af ryki meinfýsni mundir þú skilja merkingu hinna táknrænu orða sem eru opinberuð af alltumlykjandi orði Guðs sem er birt í sérhverju
trúarkerfi. Þú mundir uppgötva leyndardóma guðlegrar þekkingar. Þó getur þú ekki séð skínandi morgun sannrar þekkingar fyrr en þú eyðir þeim blæjum fánýts lærdóms sem tíðkast meðal manna með eldi algjörs aðskilnaðar. Vita skaltu í sannleika að þekking er tvennskonar: guðdómleg og djöfulleg. Önnur kemur frá brunni guðlegs innblásturs; hin er einungis endurspeglun hégómlegra og myrkra hugsana. Uppspretta hinnar fyrri er Guð sjálfur. Hreyfiafl hinnar síðari er hvískur eigingjarnar ástríðu. Önnur hefur að leiðarljósi orðin ,,Óttist Guð; Guð mun fræða yður“. Hin er aðeins staðfesting á sannleika orðanna: ,,Þekking er hin hryggilegasta blæja milli manns og Skapara hans.“ Hin fyrri laðar fram ávexti þolinmæði, löngunarfullrar þrár, sanns skilnings og ástar, en hin síðari gefur ekkert af sér nema hroka, hégómafíkn og dramb. Ekki er með neinu móti hægt að finna ódaun þessara torræðu fræðikenninga sem hafa hjúpað heiminn myrkri af ummælum þeirra meistara heilags máls sem hafa útskýrt merkingu sannrar þekkingar. Tré slíkrar þekkingar getur ekki gefið af sér neitt nema ójöfnuð og uppreisn og ber enga ávexti nema hatur og öfund. Ávöxtur þess er banvænt eitur; skuggi þess eyðandi eldur. Hversu vel hefur ekki verið komist að orði: ,,Hald fast við kyrtilinn sem þrá hjarta þíns íklæðist og vík frá þér allri smán; bið hina veraldarvísu að víkja frá þér hversu þekkt sem nöfn þeirra eru.“

Hjartað verður því að hreinsa af fánýtum ummælum manna og helga frá sérhverri jarðneskri ást, svo það megi uppgötva dulda merkingu guðlegs innblásturs og verða fjárhirsla leyndardóma guðdómlegrar þekkingar. Því hefur verið sagt: ,,Hann sem fetar hinn fannhvíta stíg og fylgir hinum fagurrauða stólpa mun aldrei komast til híbýla sinna nema hendur hans séu tómar af þeim veraldlegu hlutum sem mönnum eru kærir.“ Þetta er fyrsta krafan sem gerð er til hvers og eins sem gengur þennan veg. Íhuga þessi orð svo að þú getir með skýrri sýn skilið sannleika þeirra. [.....]

Þannig hefur merking ,,himinsins“ í ofangreindum versum verið skýrð til fullnustu með þessum upplýsandi, ótvíræðu og ljósu fullyrðingum. Og nú hvað varðar orð hans þess efnis, að Mannssonurinn ,,komi í skýjum himinsins.“ Með orðinu ,,ský“ er átt við þá
hluti sem eru andstæðir aðferðum mannanna og ástríðum þeirra. Líkt og hann hafði opinberað í áður nefndri ritningargrein: ,,Ætíð þegar postuli kemur til yðar með það sem hjörtu yðar vilja ekki, bólgnið þér upp af drambi, sakið suma um svik og drepið aðra“14.

Þessi ,,ský“ tákna á einn hátt ógildingu laganna, afnám fyrri trúarkerfa, höfnun helgisiða og venja sem tíðkast meðal manna, upphafningu hinna ómenntuðu og trú föstu yfir lærða andstæðinga trúarinnar. Í öðrum skilningi tákna þau birtingu þeirrar ódauðlegu fegurðar í mynd dauðlegs manns sem er háður mannlegum takmörkunum, svo sem mat og drykk, fátækt og ríkidæmi, dýrð og niðurlægingu, svefni og vöku og öðrum þeim hlutum sem varpa efa í hugi mannanna og valda fráhvarfi þeirra. Allar slíkar slæður eru á táknrænu máli nefndar ,,ský.“

Þetta eru ,,skýin“ sem valda því að himnar þekkingar og skilnings allra sem dvelja á jörðu klofna. Líkt og hann hefur opinberað: ,,Á þeim degi munu skýin kljúfa himininn.“15 Eins og skýin sem byrgja auganu sólarsýn, þannig koma þessir hlutir í veg fyrir að sálir mannanna beri kennsl á birtu hins guðlega ljósgjafa. Þessu bera vitni orð vantrúarmannanna eins og opinberað hefur verið í hinni helgu bók: ,,Og þeir hafa sagt: ,Hverskonar postuli er þetta? Hann neytir matar og gengur um strætin. Ef ekki kemur engill af himni sendur og staðfestir viðvaranir hans, munum við ekki trúa.‘ “16 Aðrir spámenn hafa á sama hátt þjáðst vegna fátæktar og harðræðis, hungurs, hörmunga og um skipta þessa heims. Þar sem þessar helgu persónur urðu að líða slíkan skort og neyð villtust mennirnir á auðnum kvíða og efasemda, lostnir undrun og ráðleysi. Þeir furðaði sig á hvernig slík persóna gæti verið send frá Guði, staðfest yfirráð sín yfir öllum þjóðum og kynkvíslum jarðarinnar og sagt sig vera markmið allrar sköpunarinnar — líkt og hann hefur sagt: ,,Ef ekki væri þín vegna hefði ég ekki skapað allt á himnum og á jörðu“ — og samt orðið að þjást vegna svo smávægilegra hluta.

Þér hefur án efa verið skýrt frá þjáningunum, fátæktinni, hörmungunum og auðmýkingunum sem fallið hafa í hlut öllum spámönnum Guðs og félögum hans. Þú hlýtur að hafa heyrt hvernig höfuð fylgjenda hans voru send sem gjafir til ýmissa borga, með hve hraksmánarlegum hætti þeir voru hindraðir í að gera það sem þeim hafði verið boðið. Sérhver þeirra varð óvinum málstaðar síns að bráð og þurfti að þola það sem þeir lögðu á hann. Það er augljóst að umbyltingarnar sem verða í hverju trúarkerfi eru hin dimmu ský sem koma á milli augna mannlegs skilnings og þeirra himnesku ljósgjafa sem skína frá dagsbrún guðdómlegs kjarna. Íhugið hvernig menn hafa í margar kynslóðir líkt í blindni eftir feðrum sínum og verið agaðir í samræmi við þær leiðir og markmið sem kveðið var á um í forskriftum trúar þeirra. Ef þessir menn yrðu þess skyndilega varir að maður sem hefur lifað mitt á meðal þeirra og verið háður sömu mannlega takmörkunum og þeir sjálfir, væri byrjaður að afnema sérhverja viðurkennda meginreglu trúar þeirra — reglur sem voru lagðar til grundvallar uppeldi þeirra og ögun og sérhver afneitari eða andstæðingur þeirra var talinn trúvillingur, siðleysingi og illmenni — mundu þeir
vissulega blindast og ekki geta viðurkennt sannleika hans. Slíkir hlutir eru sem ,,ský“ og byrgja þeim sýn sem hið innra með sér hafa ekki smakkað Salsabíl (brunnur paradísar) aðskilnaðar né drukkið af Kawthar þekkingar Guðs. Þegar slíkir menn komast í þannig aðstöðu verður blinda þeirra svo mikil að án nokkurs hiks lýsa þeir opinberanda Guðs trúvilling og dæma hann til dauða.

Þú hlýtur að hafa heyrt um slíka viðburði sem gerst hafa á öllum öldum og sérð þá gerast nú á dögum. [....]

Sömuleiðis sagði hann: ,,Á þeim degi er himinninn gefur frá sér dimman reyk sem umlykur mannkynið: Það verður sár þjáning.“17 Hinn aldýrlegi hefur ákvarðað einmitt þessa hluti sem eru andstæðir óskum illra manna sem mælikvarða og prófstein á þjóna hans, svo þekkja megi hinn réttláta frá hinum rangláta og hinn trúfasta frá trúvillingnum. Táknorðið ,,reykur“ merkir alvarlegan ágreining, afnám og eyðingu viðurkenndra mælikvarða og fullkomna tortímingu þröngsýnna talsmanna þeirra. Hvaða reykur er áþreifanlegri og ægilegri en sá sem nú umlykur allar þjóðir jarðarinnar og kvelur þær? Þær eru allsendis ófærar um að komast undan honum hversu mjög sem þær reyna. Svo heiftugur er þessi eldur sjálfsins sem brennur hið innra með þeim að á hverju andartaki virðast þær lostnar nýjum hörmungum. Því meira sem þær heyra um þennan undursamlega málstað Guðs, þessa opinberun frá hinum hæsta — að hún hafi verið birt öllu mannkyni og eflist og vaxi með hverjum degi — þeim mun heitar brennur eldurinn í hjörtum þeirra. Því meira sem þær sjá af ósigrandi styrk, fullkominni afneitun, óskeikulli staðfestu heilagra félaga Guðs sem með Guðs hjálp verða göfugri og dýrlegri með hverjum degi, þeim mun dýpri verður óttinn sem tærir sálir þeirra. Á þessum dögum, lof sé Guði, hefur vald orðs hans náð slíkum tökum á mönnunum að þeir þora ekki að mæla orð frá vörum. Ef þeir hittu einn félaga Guðs sem mundi fús og glaður fórna tíu þúsund lífum fyrir Ástvin sinn ef hann gæti það yrðu þeir svo óttaslegnir, að þeir mundu strax játa trú sína á hann, en í leyndum mundu þeir vanhelga og svívirða nafn hans! Líkt og hann hefur opinberað: ,,Og þegar þeir mæta ykkur segja þeir: ,Við trúum‘, en þegar þeir eru fjarri ykkur, bíta þeir í fingur sína af heift gegn yður. Seg: ,Deyið í heift ykkar!'18 Guð þekkir vissulega innstu afkima hjartna ykkar.“ [.....]

Og nú hvað varðar orð hans: ,,Og hann mun senda engla sína . . .“ Með ,,englum“ er átt við þá sem styrktir mætti andans hafa með eldi ástar Guðs eytt öllum mannlegum einkennum og takmörkunum og íklæðst eigindum hinna upphöfnustu vera og kerúba. Sá
helgi maður, Sádiq, 19 sagði í lofræðu sinni um kerúbana: ,,Lið trúbræðra okkar úr flokki shí’íta stendur bak við hásætið.“ Margar mismunandi túlkanir eru til á orðunum ,,bak við hásætið“. Í vissum skilningi gefa þau til kynna að enginn sannur shí’íti sé til. Líkt og hann hefur sagt í annarri málsgrein: ,,Sönnum átrúanda er líkt við stein heimspekingsins.“ Er hann síðan ávarpaði áheyranda sinn sagði hann: ,,Hefur þú nokkru sinni séð stein heimspekingsins?“ Íhuga hvernig þessi táknrænu orð, snjallari en nokkur bersögul ræða, bera því vitni að enginn sannur átrúandi er til. Slíkur er vitnisburður Sádiq. Og íhuga nú ósanngirni þeirra fjölmörgu sem ekki hafa sjálfir andað að sér ilmi trúarinnar, en fordæma þá sem trúvillinga sem með orðum sínum grundvalla og staðfesta sjálfa trúna. Og þar sem þessar heilögu verur hafa helgað sig frá sérhverri mannlegri takmörkun, íklæðst eigindum hins andlega og skrýðst göfugum einkennum hinna blessuðu, hafa þær verið nefndar ,,englar“. Þetta er þýðing þessara versa. Sérhvert orð þeirra hefur verið útskýrt með aðstoð hinna skýrustu texta, áhrifamestu röksemda og áreiðanlegustu sannana. Þar sem fylgjendur Jesús hafa aldrei skilið hulda merkingu þessara orða og þar eð táknin sem þeir og trúarleiðtogar þeirra hafa beðið eftir hafa aldrei komið fram neituðu þeir allt fram til þessa dags að viðurkenna sannleika þeirra opinberenda heilagleikans sem hafa verið birtir síðan á dögum Jesú. Þeir hafa þannig svift sjálfa sig úthellingu heilagrar náðar Guðs og undrum guðlegra orða hans. Svo lág er staða þeirra á þessum degi upprisunnar! Þeir hafa ekki einu sinni getað skilið, að ef tákn opinberanda Guðs á sérhverri öld birtust í sýnilega ríkinu í samræmi við texta staðfestra arfsagna, gæti enginn afneitað þeim eða snúið við þeim baki og ekki væri hægt að aðgreina hinn blessaða frá hinum vesæla og yfirtroðslumanninn frá þeim sem óttast Guð. Dæmdu af sanngirni. Ef spádómarnir sem skráðir eru í guðspjöllunum rættust bókstaflega; ef Jesús, sonur Maríu, stigi niður í skýjunum í fylgd engla frá hinum sýnilega himni, hver mundi þora að sýna vantrú, hver mundi dirfast að hafna sannleikanum og bera sig drembilega? Nei, slíkt ofboð myndi strax grípa alla sem eru á jörðu, að engin sál gæti mælt orð frá vörum hvað þá heldur hafnað sannleikanum eða viðurkennt hann. Vegna þess að mörgum kristnum guðsmönnum tókst ekki að skilja þessi sannindi, andmæltu þeir Múhammeð og gáfu andstöðu sína til kynna með orðum sem þessum: ,,Ef þú ert í sannleika spámaðurinn fyrirheitni, hversvegna eru englarnir ekki í för með þér sem heilagar bækur okkar sögðu fyrir; þeir sem eiga að stíga niður með hinni fyrirheitnu fegurð til að aðstoða hann við opinberun hans og aðvara þjóð hans?“ Hinn aldýrlegi skráði fullyrðingar þeirra þannig: ,,Hversvegna hefur engill ekki verið sendur með honum okkur til varnaðar?“20

Slík mótmæli og deilur hafa blossað upp á öllum öldum. Mennirnir hafa ævinlega verið uppteknir af þessum villandi hugleiðingum og mótmælt til fánýtis: ,,Hversvegna hefur ekki þetta eða hitt táknið komið fram?“ Þeir rötuðu í þessar þrengingar vegna þess
eins að þeir höfðu samið sig í einu og öllu að háttum guðsmanna samtímans og fylgdu þeim að máli hvort heldur þeir viðurkenndu eða höfnuðu þessum frum kjörnum sjálfslausnar, þessum helgu og guðlegu verum. Þar sem þessir leiðtogar voru ofurseldir eigin gjörnum ástríðum sínum og sóttust eftir tímanlegum og auvirðilegum hlutum, hafa þeir talið að þessir guðlegu ljósgjafar stæðust ekki mælikvarða þekkingar þeirra og skilnings og væru andsnúnir aðferðum þeirra og dómum. Þar sem þeir hafa túlkað bókstaf lega orð Guðs ásamt orðum og arfsögnum bókstafa einingarinnar og útskýrt þau samkvæmt sínum eigin takmarkaða skilningi, hafa þeir svift sig og gervalla þjóð sína örlátum regnskúrum náðar og miskunnar Guðs. Og samt bera þeir vitni þessari vel þekktu arfsögn: ,,Vissulega er orð vort torskilið, afar torskilið“. Í öðru tilviki er sagt: ,,Málstaður vor er erfið prófraun, ákaflega torræður; enginn getur borið hann nema
eftirlæti himnanna eða innblásinn spámaður og sá sem reyndur hefur verið í trú sinni af Guði.“ Þessir trúarleiðtogar viðurkenna að ekkert þessara þriggja tilgreindu skilyrða eigi við þá. Það er augljóst, að þeir uppfylla ekki fyrstu tvö skilyrðin og hvað hið þriðja
varðar er ljóst að þeir hafa aldrei verið sönnun gegn þeim þolraunum sem Guð hefur sent. Og þegar hinn guðlegi prófsteinn birtist kom í ljós að þeir voru ein skær sori. [.....]

Ef þeir væru spurðir um þau tákn sem eiga að boða opinberun og upprás sólar trúarkerfis Múhammeðs sem vér þegar höfum vísað til — og ekkert þeirra hefur ræst bókstaflega — og ef sagt væri við þá: ,,Hversvegna hafið þið hafnað tilkalli kristinna manna og fylgjenda annarra trúarbragða og litið á þá trúvillinga?“ mundu þeir ekki vita hverju þeir ættu að svara og segðu: ,,Þessar bækur hafa verið rangfærðar. Þær eru ekki og hafa aldrei verið frá Guði.“ Íhuga: Orð versanna sjálfra bera mælskt vitni þeim sannleika að þau eru frá Guði. Svipað vers hefur einnig verið opinberað í Kóraninum ef þér tilheyrið þeim sem skilja.

Sannlega segi ég, allan þennan tíma hefur þeim gjörsamlega mistekist að skilja hvað átt er við með rang færslu textanna. [.....]

Kæri vinur! Nú þegar ljós eilífs morguns Guðs rennur upp þegar geislar heilagra orða hans: ,,Guð er ljós himins og jarðar“ 21 stafa birtu sinni yfir allt mannkynið; þegar flekkleysi helgidóms hans er kunngert í heilögum orðum hans: ,,Guð hefur viljað fullkomna ljós sitt“ 22; og hönd almættisins sem ber þennan vitnisburð hans: ,,Í greip sinni hefur hann ríki allra hluta“, er útrétt til allra þjóða og kynkvísla jarðarinnar, þá sæmir það okkur að gyrða lendar viðleitni okkar svo við fyrir náð og miskunn Guðs getum gengið inn í borgina himnesku: ,,Vissuleg tilheyrum við Guði“ og hvílast innan hinna upphöfnu híbýla: ,,Og til hans snúum við aftur.“ Þér ber skylda með Guðs leyfi til að hreinsa augu hjarta þíns af veraldlegum hlutum svo þú megir gera þér grein fyrir óendanleik guðlegrar þekkingar og getir skynjað sannleikann svo skýrt að þú þurfir ekki á neinum rökum að halda til að sýna fram á raunveruleik hans né neinni sönnun til að staðfesta vitnisburð hans.

Ó ástríki leitandi! Ef þú svifir í heilögu ríki andans sæir þú Guð opinberaðan og upphafinn yfir alla hluti með þeim hætti að augu þín mundu ekki sjá neinn nema hann. ,,Guð var einn, enginn var nema hann.“ Svo háleit er þessi staða, að enginn vitnisburður getur vottað hana og engin rök staðfest sannleiksgildi hennar á verðugan hátt. Ef þú kannaðir heilagt ríki sannleikans, mundir þú sjá að ekki er hægt að þekkja neitt nema í ljósi viðurkenningar hans; að frá upphafi og um alla eilífð hefur aðeins verið hægt að þekkja hann af hans eigin verund. Og ef þú dvelur í landi vitnisburðar ger þér að góðu það sem hann sjálfur hefur opinberað. ,,Nægir þeim ekki, að vér höfum sent bókina niður til þín?“23 Þetta er vitnisburður sem hann hefur sjálfur ákvarðað; engin sönnun er, né getur orðið, þessari æðri: ,,Þessi sönnun er orð hans; hans eigið sjálf, vitnisburður sannleika hans.“

_______________

1. Kóraninn 76:9
2. Kóraninn 5:117
3. Kóraninn 14:24
4. Gríska orðið í frumtextanum (Thlipsis) hefur tvær merkingar:
þrýstingur og þrenging.
5. Matt. 24:29-31
6.Bahá’u’lláh vitnar til ritningargreinarinnar á arabísku og þýðir
hana síðan á persnesku.
7. Lúkas 21:33
8. Hin örugga handfesti
9. Kóraninn 55:5
10. Kóraninn 67:2
11. Kóraninn 76:5
12. Kóraninn 55:29
13. Kóraninn 51:22
14. Kóraninn 2:87
15. Kóraninn 25:25
16. Kóraninn 25:7
17. Kóraninn 44:10
18. Kóraninn 3:119
19. Sjötti imám shí’íta
20. Kóraninn 25:7
21. Kóraninn 24:35
22. Kóraninn 9:33
23. Kóraninn 29:51