bstar

Núr - Ljós

line

Það er von mín að nítjándagahátíðin efli mjög samstöðu vinanna,
bindi þá bandi einingar; að eining okkar
verði slík að ást og viska dreifist víða vegu
frá þessum miðpunkti.
Þessi hátíð er guðleg hátíð.
Hún er heilög kvöldmáltíð.
Hún dregur að sér staðfestingu Guðs eins og segull.
Hún verður til þess að uppljóma hjörtun.

'Abdu'l-Bahá

line

1. NúrÓ, verundarson! Voldugum höndum gerði ég þig og styrkum fingrum skóp ég þig og í brjóst þér hef ég lagt kjarna ljóss míns. Ger þér þetta að góðu og leita einskis annars, því að verk mitt er fullkomið og boð mín bindandi. Treyst því og drag það eigi í efa.

Bahá'u'lláh

5. júní

 

HOA 12
 

Ver augu hinum blinda og leiðarljós þeim, sem fer villur vegar. Ver djásn á ásýnd sannleikans, kóróna á enni trúmennskunnar, stólpi musteri réttlætisins, lífsandi líkama mannkynsins, tákn herskara réttvísinnar, skínandi hnöttur yfir sjónbaug dyggðarinnar, dögg jarðvegi mannshjartans, örk á hafi þekkingarinnar, sól á himni örlætisins, gimsteinn í festi viskunnar, skínandi ljós á festingu kynslóðar þinnar, ávöxtur á tré auðmýktarinnar.

Bahá'u'lláh

ÚRV CXXX.
  stars  

2. Núr

Opinberunin, sem frá ómunatíð hefur verið yfirlýstur tilgangur og fyrirheit allra spámanna Guðs og hjartkærust ósk boðbera Hans, hefur nú í krafti gagntæks vilja hins Almáttka og ómótstæðilegrar ráðsályktunar Hans verið birt mönnunum. Uppfylling slíkrar opinberunar hefur verið kunngerð í öllum helgiritunum. Sjá hversu mannkynið hefur, þrátt fyrir slíka boðun, villst af vegi hennar og hulið sig fyrir dýrð hennar.

Bahá'u'll´áh

6. júní
LLV 74:74
 

Ó, vinir mínir! Gangið vegu velþóknunar hins elskaða og vitið að velþóknun hans er að finna í velþóknun skepna hans. Það er: enginn maður ætti að ganga inn í hús vinar síns nema að þóknun vinarins né ásælast fjármuni hans eða taka sinn eigin vilja fram yfir vilja vinar síns og á engan hátt sýna honum ofríki. Hugleiðið þetta, ó þér sem hafið innsæi.

Bahá'u'lláh

HOP 43
  stars  

3. Núr

Ávextirnir á tré tilverunnar eru áreiðanleiki, hollusta, sannsögli og hreinleiki. Eftir að hafa viðurkennt einingu Guðs, upphafinn sé hann, er það mikilvægasta skylda mannsins að virða rétt foreldra sinna. Þessa máls hefur verið getið í öllum bókum Guðs

Bahá'u'lláh

7. júní
HF 151
 

Skoða ekki alltnægjandi afl Guðs sem fánýta blekkingu. Það er sú ósvikna trú sem þú hefur á opinberanda Guðs í sérhverju trúarkerfi. Það er sú trú sem nægir framar öllu sem er á jörðu, þar sem aftur á móti ekkert sem skapað er á jörðunni mun nægja þér nema trúin. Værir þú ekki átrúandi mundi meiður himnesks sannleika dæma þig til útslokknunar. Ef þú ert átrúandi mun trú þín nægja þér framar öllu sem er á jörðu jafnvel þótt þú eigir ekkert.

Bábinn

LLV 61:62
  stars  

4. Núr

Komið fram við hvern annan í innilegustu ást og samstillingu, með vináttu og bræðralagi. Sól sannleikans ber mér vitni! Svo öflugt er ljós einingarinnar að það getur upplýst allan heiminn. Hinn eini sanni Guð, sá sem þekkir alla hluti, ber sjálfur vitni þessum orðum.

Bahá'u'lláh

8. júní
ÚRV CXXXII
 

Ó, sonur hins æðsta! Ég hef gert dauðann að sendiboða fagnaðar til þín. Því ert þú dapur? Ég hef úthellt yfir þig dýrð ljóssins. Því hylur þú ásjónu þína?

Bahá'u'lláh

HOA 32
  stars  

5. Núr

Ef þér kunnið skil á tilteknum sannindum, ef þér eigið í fórum yðar eðalstein sem aðrir hafa farið á mis við, veitið þeim þá hlutdeild í honum með innilegum vináttuorðum og góðvild. Sé honum veitt viðtaka, þjóni hann hlutverki sínu, er tilgangi yðar náð. Ef einhver hafnar honum látið hann einan og biðjið Guð að leiðbeina honum. Varist að fara að honum með óvild. Góðviljuð tunga er sem segull á mannshjörtun. Hún er brauð andans, hún íklæðir orðin merkingu, hún er uppspretta ljóss visku og skilnings.

Bahá'u'lláh

9. júní
HF 102
 

Það sem hindrar yður á þessum degi frá því að elska Guð er ekkert nema heimurinn. Flýið hann svo þér megið teljast til hinna sælu. Ef maður óskaði að skrýða sig skarti jarðarinnar, klæðast klæðum hennar eða fá hlutdeild í þeim gæðum sem hún getur gefið, getur ekkert illt komið fyrir hann ef hann leyfir alls engu að koma á milli sín og Guðs því Guð hefur fyrirbúið alla góða hluti, hvort heldur þeir eru skapaðir á himnum eða jörðu, þeim þjónum sínum sem sannlega trúa á hann. Etið, ó menn, af hinu góða sem Guð hefur leyft yður og sviftið yður eigi undursamlegum gjöfum hans. Færið honum þakkir og lofgjörð og teljist með þeim sem eru sannlega þakklátir.

Bahá'u'lláh

HF 192
  stars  
6. Núr

Hrópa upp og kalla fólkið á fund allsráðandi Drottins allra veraldanna með svo brennandi ákefð að þú megir tendra eld í öllum mönnum.

Bahá'u'lláh

10. júní
RUHI 9, 50
 

Leysið yður úr öllum viðjum þessa heims og hégóma hans. Varist að nálgast hann, því hann leiðir yður inn á vegu ágirndar og sjálfselsku og hindrar yður frá að ganga inn á hinn beina og dýrlega veg.

Bahá'u'lláh

HF 48
  stars  

7. Núr

Með sérhverri þjóð sérð þú ótalda andlega leiðtoga sem skortir sannan skilning og meðal sérhverrar kynkvíslar fyrirhittir þú fjölda áhangenda sem sneyddir eru sömu einkennum. Hugleið um stund í hjarta þínu og sjá aumur á sjálfum þér og bein eigi athygli þinni frá sönnunum og vitnisburði. En leita þú eigi sannana og vitnisburðar samkvæmt þínum eigin ímyndunum; reis þess í stað sannanir þínar á því sem Guð hefur ákvarðað.

Bábinn

11. júní
LLV 62:63
 

Kennið málstað Guðs, ó fylgjendur Bahá, því Guð hefur ákvarðað hverjum og einum þá skyldu að kunngera boðskap hans og metur það framar öllum öðrum gerðum. Slík gerð er aðeins þóknanleg þegar sá sem kennir málstaðinn er sjálfur staðfastur í trú sinni á Guð, hinn æðsta verndara, náðuga og almáttuga. Hann hefur auk þess ákveðið að málstað hans eigi að boða með aflinu sem býr í orðum manna en ekki valdbeitingu.

Bahá'u'lláh

ÚRV CXXVIII
  stars  
8. Núr

Nauðsynlegt er að hafa samráð um öll málefni. Þú ættir að leggja ríka áherslu á þetta svo að allir megi taka ráð saman. Tilgangurinn með því sem penni hins hæsta hefur opinberað er sá að vinirnir hafi fullt samráð sín á milli, því það víkkar vitund mannsins, nú og ævinlega, stuðlar að vakningu hans og leiðir til þess sem er gott og heillaríkt.

Bahá'u'lláh

12. júní
HF 106
 

Leyf eigi tungu þinni að mæla það sem gæti hryggt þig og bið Guð um miskunn. Vissulega þekkir hann fullvel þá réttlátu, því hann er hjá þeim þjónum sínum sem í sannleika trúa á hann, og honum er ekki ókunnugt um gerðir illvirkjanna, því ekkert á himnum né jörðu getur umflúið þekkingu hans.

Bábinn

LLV 67:66-67
  stars  
9. Núr

Ó mannssonur! Ógæfa frá mér er forsjón mín, hið ytra er hún eldur og hefnd, en hið innra ljós og miskunn. Hraða þér á hennar fund að þú megir verða eilíft ljós og ódauðlegur andi. Þetta er boð mitt til þín, breyt samkvæmt því.

Bahá'u'lláh

13. júní
HOA 51
 

Sannur dauði er þegar maður deyr sjálfum sér á tíma opinberunar hans með þeim hætti að hann leitar einskis nema hans. Sönn upprisa úr gröfunum merkir endurlífgun í samhljóðan við vilja hans, fyrir vald máls hans. Paradís er að öðlast velþóknun hans og eilífur helvítiseldur er dómur réttlætis hans. Sá dagur er hann opinberar sjálfan sig er upprisudagurinn sem mun standa jafn lengi og hann ákvarðar. Allt tilheyrir honum og er mótað af honum. Allt annað en hann er sköpun hans.

Bábinn

LLV 64:64
  stars  
10. Núr

Ó, sonur minn! Samneyti við óguðlega eykur sorgir en vinfengi við réttláta hreinsar ryðið af hjartanu. Látið þann sem óskar að samneyta Guði leita félagsskapar hans elskuðu og þann sem vill hlusta á orð Guðs ljá eyra orðum hans útvöldu.

Bahá'u'lláh

14. júní
HOP 56
 

Þegar maðurinn hefur viðurkennt Guð og fengið staðfestu í málstað hans er staða ástúðar, samræmis, samlyndis og einingar æðri flestum öðrum góðum gerðum. Þessu hefur hann sem er þrá heimsins borið vitni á hverjum morgni og hverju kvöldi.

Bahá'u'lláh

HF 87
  stars  
11. Núr

Ég heiti á þig við mátt Þinn, ó Guð minn! Lát ekkert verða mér að meini á tímum prófrauna, og á gáleysisstundum leiðbein þú skrefum fóta minna með innblæstri þínum. Þú ert Guð; megnugur ert þú að gera það, sem þér þóknast. Enginn fær staðið gegn vilja þínum eða aftrað ákvörðun þinni.

Bábinn

15. júní
LLV 30:44
 

Þeir sem eru einlægir og trúfastir ættu að samneyta öllum þjóðum og kynþáttum jarðar með fögnuði og útgeislan því að mannleg samskipti hafa ætíð stuðlað að einingu og samstillingu sem að sínu leyti viðheldur reglu í heiminum og endurlífgar þjóðirnar. Sælir eru þeir sem eru fastheldnir á gæsku og milda miskunnsemi, lausir við hatur og fjandskap. 

Bahá'u'lláh

HF 201
  stars  
12. Núr

Samráð miðlar aukinni vitund og breytir getgátum í fullvissu. Það er skínandi ljós sem í dimmum heimi leiðbeinir og lýsir upp veginn. Allt á og mun framvegis eiga sér stöðu fullkomnunar og þroska. Þroski skilningsgáfunnar er birtur fyrir tilstilli samráðs.

Bahá'u'lláh

16. júní
HF 51
 

Ó, verundarsonur! Ef fátækt verður förunautur þinn ver eigi dapur því um síðir mun allsnægtanna Drottinn vitja þín. Óttast eigi niðurlægingu því að lokum mun dýrð hvíla yfir þér.

Bahá'u'lláh

HOA 53
  stars  

13. Núr

Vissulega er ánægja nauðsynlegust alls undir öllum kringumstæðum; hún er vörn gegn þreytu og sjúklegu ástandi. Látið ekki hryggð eða sorg ná tökum á yður; það veldur mestri eymd. Afbrýði tærir líkamann og reiðin brennir lifrina; forðist þetta tvennt eins og þér munduð forðast ljón.

Bahá'u'lláh

17. júní
HF 118
 

Vér höfum í bók vorri vissulega áformað gott og ríkulegt endurgjald hverjum þeim sem snýr sér frá illsku og lifir frómu og siðlátu lífi. Hann er að sönnu gjafarinn mikli, hinn algjöfuli.

Bahá'u'lláh

HF 63
  stars  
14. Núr

Guð, hinn sanni, og opinberendur nafna hans og eiginda bera því vitni, að eini tilgangur vor með því að upphefja þetta kall og kunngera hið æðsta orð hans, er að eyra allrar sköpunarinnar megi, fyrir lifandi vötn himnesks máls, hreinsast af uppspuna og hneigjast að þessu heilaga, dýrlega og upphafna orði sem framgengið hefur úr hirslu þekkingar hans sem er mótandi himnanna og skapari nafnanna. Sælir eru þeir sem dæma af réttvísi.

Bahá'u'lláh

18. júní
LLV 96:102
 

Deilið ekki við neinn um málefni þessa heims og jarðneska hluti því Guð hefur selt þá í hendur þeim sem ágirnast þá. Af öllu í heimi hefur hann ætlað sjálfum sér hjörtu mannanna  hjörtu sem herskarar orða og opinberunar geta sigrað.

Bahá'u'lláh

ÚRV CXXVIII
  stars  
15. Núr

Saurgið eigi tungur yðar með því að formæla eða atyrða neina sál og verjið augu yðar því sem ekki er sæmandi. Berið það fram sem þér eigið. Sé því veitt viðtaka, er tilgangi yðar náð; ef ekki, þá eru mótmæli haldlaus. Látið þá sálu eina og snúið yður til Drottins, verndarans, hins sjálfnóga. Valdið ekki sorg, hversu miklu síður ósamlyndi eða deilum. Sú von lifir, að þér megið hljóta sanna uppfræðslu í skjólinu af meiði blíðrar miskunnar hans og hegða yður í samræmi við það, sem Guð þráir. Þér eruð öll lauf eins trés og dropar eins hafs.

Bahá'u'lláh

19. júní
LLV 96:107
 

Sá verður ekki talinn til fylgjenda Bahá sem lætur stjórnast af veraldlegum ástríðum sínum eða ásælist í hjarta sínu jarðneska hluti

Bahá'u'lláh

ÚRV LX.
  stars  
16. Núr

Hversu fjölmennur er eigi hópur þeirra, sem vel eru að sér í öllum vísindum, samt er það fastheldni þeirra við heilagt orð Guðs, sem skera mun úr um trú þeirra, því að ávöxtur sérhverrar vísindagreinar er eigi annað en þekking á himneskum boðorðum og undirgefni undir velþóknun Hans.

Bábinn

20. júní
LLV 57:60
 

Það er skilyrðislaus skylda foreldra að ala upp börn sín þannig að þau verði stöðug í trú. Ástæðan er sú að barn sem fjarlægist trú Guðs, hegðar sér ekki þannig að það ávinni sér velþóknun foreldra sinna og Drottins síns. Því sérhver lofsverð gerð sprettur af ljósi trúarinnar og ef barnið skortir þessa æðstu gjöf mun það ekki snúa sér frá neinu illu né sækjast eftir neinu góðu.

Bahá'u'lláh

HF 148
  stars  
17. Núr

Vér skynjum glöggt hvernig miklar og ómældar hörmungar steðja að öllu mannkyni. Vér sjáum það tærast upp á sjúkrabeði sínum, þjakað og vonsvikið. Þeir sem hafa ölvað sig drambi koma á milli þess og hins himneska, óskeikula græðara. Sjáið hvernig þeir hafa flækt sjálfa sig og alla aðra í net vélráða sinna. Þeir geta hvorki greint orsakir sjúkdómsins né hafa nokkra þekkingu á lyfinu. Hið beina telja þeir bogið og vin sinn fjandmann. Hneigið eyru yðar að ljúfum söng þessa fanga. Rísið og hefjið upp raddir yðar svo að þeir sem eru í fastasvefni megi vakna. Seg: Ó þér, sem eruð sem dauðir! Hönd himneskrar gjafmildi býður yður vatn lífsins. Hafið hraðann á og drekkið nægju yðar. Hver sem hefur endurfæðst á þessum degi mun aldrei deyja; hver sem áfram er andvana mun aldrei lifa.

Bahá'u'lláh

21. júní
ÚRV CVI.
 
Þar sem þessi efnislega umgjörð er hásæti hins innra musteris, skynjar hið síðarnefnda allt sem fellur hinu fyrrnefnda í hlut. Í rauninni er það innra musteri líkamans sem fagnar í gleði eða hryggist í sorg, ekki líkaminn sjálfur. Þar sem þessi efnislegi líkami er hásæti hins innra musteris hefur Guð ákvarðað að varðveita skuli líkamann eins og unnt er til þess að enginn megi kenna óbeitar.

Bábinn

HF 67
  stars  
18. Núr

Vér höfum fyrirhugað yður tíma, ó þjóðir. Ef þér látið undir höfuð leggjast á tilsettri tíð að snúa yður til Guðs mun hann vissulega hremma yður heiftartökum og láta hörmulegar þrengingar steðja að yður úr öllum áttum. Þungbær verður að sönnu hirtingin sem Drottinn yðar mun þá veita yður!

Bahá'u'lláh

22. júní
ÚRV CVIII.
 

Maðurinn er hinn æðsti verndargripur. Skortur á réttri uppfræðslu hefur hinsvegar svipt hann því sem býr í eðli hans. Fyrir orð sem framgekk af munni Guðs var hann skapaður; með einu orði til viðbótar var hann leiddur að uppsprettu fræðslu sinnar; með enn einu orði var skjaldborg slegin um stöðu hans og forlög. Hin mikla verund segir: Lítið á manninn sem námu fulla af ómetanlegum gimsteinum. Aðeins uppfræðsla getur fengið hana til að opinbera fjársjóði sína og gert mannkyni kleift að njóta góðs af þeim.

Bahá'u'lláh

ÚRV CXXII.
  stars  
19. Núr

Sameining og samneyti hafa alltaf verið þóknanleg frammi fyrir Guði en aftur á móti er aðskilnaður og ágreiningur andstyggð í hans augum. Haldið því fast við það sem Guð elskar og hefur boðið ykkur. Hann er vissulega hinn alvísi og alsjáandi og hann er hinn alvitri ákvarðandi.

Bahá'u'lláh

23. júní
HF 86
 

Þar eð allir menn eru runnir undan skugganum af táknum guðdómleika Hans og yfirráða hneigjast þeir ætíð til þess að feta leið sem er háleit og upphafin. Og vegna þess að þá skortir skilningsríkt auga til að þekkja sinn elskaða, bregðast þeir þeirri skyldu sinni að sýna honum auðmýkt og auðsveipni. Engu að síður tigna þeir Guð frá öndverðum dögum lífs síns til loka þess í samhljóðan við þau lög sem grundvölluð voru í undangengnum trúarbrögðum, vegsama hann í guðrækni, knékrjúpa guðdómlegum veruleika hans og sýna upphöfnum kjarna hans undirgefni. En á stundu opinberunarinnar beina þeir allir augum sínum að sjálfum sér og eru þannig útilokaðir frá honum því að í blekking sinni halda þeir að hann líkist þeim sjálfum. Fjarri sé slíkur samanburður dýrð Guðs. Sannlega líkist sú tigna verund hinni efnislegu sól, ritningarvers hans eru eins og geislarnir og allir átrúendrnir, ef þeir í sannleika trúa á hann, eru eins og speglar sem endurvarpa sólarljósinu. Ljós þeirra er því aðeins endurskin.

Bábinn

LLV 58:61
     
     

165 e. B.

11
12
13
14
15
16
17
18
19