Bahá'u'lláh

Tarázát

Í nafni mínu sem er öllum nöfnum æðra.

Vegsömun og dýrð hæfir Drottni nafnanna og skapara himnanna. Öldurnar á úthafi opinberunar hans rísa frammi fyrir augliti þjóða heimsins. Sól málstaðar hans skín gegnum sérhverja blæju og orð staðfestingar hans er hafið yfir afneitun. Hvorki upphefð kúgarans né harðstjórn illvirkjans hefur megnað að ónýta áform hans. Hve dýrlegt er ekki drottinvald hans, hve upphafið ríki hans!

Máttugi Guð! Þótt tákn hans hafi umlukið heiminn og sannanir hans og vitnisburðir séu deginum ljósari, sýnast hinir fáfróðu samt fullir gáleysis, nei, þeir virðast öllu heldur í uppreisnarhug. Ef þeir aðeins hefðu látið sér nægja að sýna andstöðu. En þeir brugga ráð saman öllum stundum til að höggva niður hið helga lótustré. Allt frá upphafi þessarar opinberunar hafa holdtekjur eigingirni með grimmd og kúgun reynt að slökkva ljós guðdómlegrar birtingar. En er Guð hafði gripið í hendur þeirra, opinberaði hann þetta ljós með allsráðandi valdi sínu og varði það valdi máttar síns uns himinn og jörð voru upplýst af birtu þess og ljóma. Lof sé honum ævinlega.

Dýrð sé þér, ó Drottinn heimsins og eftirlöngun þjóðanna, ó þú sem hefur birst í hinu mesta nafni. Fyrir sakir þess hafa perlur visku og orða opinberast í skeljunum, sem úthafi þekkingar þinnar geymir, og himinn guðdómlegrar opinberunar prýðst ljósinu frá sól ásýndar þinnar.

Ég bið þig við þetta orð sem var fullnaðarsönnun þín á meðal þjóna þinna að styrkja fylgjendur þína í þeim efnum sem geta brugðið ljóma á ásýnd málstaðar þíns í ríki þínu, reist gunnfána valds þíns meðal þjóna þinna og hafið á loft veifur leiðsagnar þinnar í öllum ríkjum þínum.

Ó Drottinn minn! Þú sérð þá halda fast í festi miskunnar þinnar og kyrtilfald gæsku þinnar. Fyrirhuga þeim það sem laðar þá nær þér og hald þeim frá öllu nema þér. Ég bið þig, ó konungur tilverunnar og verndari hins sýnilega og ósýnilega, að gera hvern þann sem rís upp til að þjóna málstað þínum sem haf sem rís og hnígur að ósk þinni, logandi af eldi þíns heilaga trés, skínandi frá sjónarhring himins vilja þíns. Vissulega ert þú hinn máttugi sem hvorki vald alls heimsins né afl þjóðanna getur veikt. Enginn er Guð nema þú, hinn eini, hinn óviðjafnanlegi, verndarinn, hinn sjálfumnógi.