Um Bók fullvissunnar - Kitáb-i-Iqán

 

Bók fullvissunnar er grundvallarrit fyrir skilning á bahá'í trúnni og kenningum hennar um samhengi og einingu trúarbragða mannkynsins. Hún var opinberuð í Írak árið 1863 þegar ofsóknir stjórnvalda í Íran og Írak á hendur bahá'íum stóðu sem hæst. Að formi til er hún svar við fyrirspurnum múlimsks fræðimanns um efni sem tengist helgiritum Islam og kristindóms. Bahá'u'lláh sýnir fram á það með tilvitnunum í Kóraninn og Gamla og Nýja testamentið að öll opinberuð trúarbrögð mannkyns eru sprottin af einni og sömu rót og opinberendurþeirra framfylgja einu og sama endurlausnaráformi Guðs. Bókinni hefur verið lýst sem einu merkasta trúarriti allra tíma - með henni leggur Bahá'u'lláh breiðan og traustan grundvöll að sáttum fylgjenda allra trúarbragða. Í henni fjallar Bahá'u'lláh um nokkra af trúarbragðahöfundum fyrri tíma og lýsir sameiginlegum þáttum trúarbragða þeirra. Hann setur fram hugtakið um stighækkandi opinberun trúarinnar, að allir trúarbragðahöfundarnir hafa talað til mannanna í samræmi við skilning þeirra og þarfir á hverjum tíma. sýnir fram á einingu hinna trúarhöfunda mannkynsins, útskýrir torræða staði í helgiritum þeirra, m.a. í Biblíunni, og leggur grundvöll að einingu mannkynsins í einum allsherjarmálstað. Kjarni röksemdafærslu hans er að frá ómunatíð hafi Guð opinberað sig mönnum með fulltingi spámanna/opinberenda sinna og að á þeirri opinberun geti ekki fremur orðið lát en að sólin hætti að gefa birtu sína. Kitáb-i-Iqán er víðlesnasta bók Bahá'u'lláh og hefur gert fjölda manna kleift að skilja veruleika sinnar eigin trúar og allra annarra trúarbragða.