Vinna og fjármál

 

Það sem á þessum degi hindrar yður frá því að elska Guð er ekkert annað en heimurinn. Forðist hann svo að þér megið teljast til þeirra sem hlotið hafa blessun. Vilji maður skrýða sig skarti jarðar, klæðast klæðum hennar eða eignast hlut í gæðum hennar getur ekkert illt af því hlotist svo fremi hann leyfi alls engu að koma milli sín og Guðs. Því að Guð hefur ákvarðað allt hið góða þeim þjónum sínum sem sannlega trúa á hann, hvort sem það er skapað á jörðu eða himni,. Etið því, ó menn, af hinu góða sem Guð hefur gefið yður og farið ekki varhluta af undursamlegu örlæti hans. Færið honum þakkir og lof og tilheyrið þeim sem sannlega eru þakklátir.
Úrval úr ritum Bahá'u'lláh, bls. 276

Ó mannssonur! Ef auðlegð fellur þér í skaut fagna eigi og ef þú kynnist niðurlægingu ver eigi hryggur, því að hvort tveggja mun líða undir lok og vera eigi framar.
Bahá'u'lláh, Hulin orð, bls. 16

Ó verundarsonur! Ef fátækt verður förunautur þinn ver eigi dapur, því um síðir mun allsnægtanna Drottinn vitja þín. Óttast eigi niðurlægingu, því að lokum mun dýrð hvíla yfir þér.
Bahá'u'lláh, Hulin orð, bls. 16
Ó þjónn minn! Bestir manna eru þeir sem vinna fyrir sér með köllun sinni og verja ávöxtum erfiðis sín á sjálfa sig og ættingja sína sakir ástar á Guði, Drottni allra veraldanna.
Bahá'u'lláh, Hulin orð, bls. 52

Ó þú þjónn hins eina sanna Guðs! Í þessu allsherjar trúarkerfi er litið á undursamlega verkkunnáttu mannsins sem tilbeiðslu til hinnar geislandi fegurðar. Íhugið hvílík hylli og blessun felst í því að litið skuli á verkkunnáttu sem tilbeiðslu. Fyrr á tímum var því trúað að slíkir hæfileikar jafngiltu fávisku, ef ekki ógæfu, sem varnaði manninum að nálgast Guð. Hugleiðið nú óendanlegar gjafir hans og ríkulega hylli sem hefur breytt vítiseldi í unaðslega paradís og dimmri öskustó í glóbjartan garð. Það sæmir kunnáttumönnum jarðar að færa hinni helgu fótskör á hverju andartaki þúsundfaldar þakkir, sýna heilshugar viðleitni og vinna starf sitt af kostgæfni, svo af viðleitni þeirra megi spretta það sem birtir augum mannsins mesta fegurð og fullkomnun.
“Selections from the Writings of 'Abdu'l-Bahá”, bls. 145

Ég vona að þú megir ætíð njóta verndar og aðstoðar undir forsjón hins sanna, verðir ávallt upptekinn af minningu Guðs og reynir að rækja starf þitt til fullnustu. Þú verður að sýna svo mikla viðleitni að þú náir einstæðum árangri í starfi þínu og verðir víðkunnur á þessum landssvæðum, því að fullkomnun á sviði atvinnu á þessu náðarríka tímaskeiði jafngildir tilbeiðslu til Guðs. Á meðan þú ert önnum kafinn við vinnu þína getur þú minnst hins sanna.
“Selections from the Writings of 'Abdu'l-Bahá”, bls. 145- 146

Sumir eyða lífi sínu einungis í veraldlega hluti; ytri siðir og viðteknir hagsmunir hafa lokað huga þeirra svo rækilega að þeir eru blindir á öll önnur svið tilverunnar, á andlega þýðingu allra hluta! Þeir hugsa og þá dreymir um jarðneska frægð og efnislegar framfarir. Sjóndeildarhringur þeirra takmarkast af holdlegum lystisemdum og makindalegu umhverfi. Æðsti metnaður þeirra er að ná árangri á veraldlega sviðinu. Þeir halda ekki aftur af lægri hneigðum sínum. Þeir eta, drekka og sofa. Líkt og dýrin leiða þeir ekki hugann að öðru en sinni eigin líkamlegu velferð. Það er rétt að þessum nauðsynjum þarf að sinna. Lífið er byrði sem við verðum að bera meðan við erum á jörðinni. En óæðri efnishlutir þessa lífs mega ekki einoka alla hugsun og eftirsókn mannanna. Metnaður hjartans á að stíga til dýrlegri hæða, starf hugans á að rísa til æðri sviða. Mennirnir ættu að geyma í sál sinni sýn himneskrar fullkomnunar og búa þar dvalarstað óþrjótandi örlæti hins guðlega anda.

Látið metnað yðar vera þann að skapa himneska siðmenningu á jörðinni! Ég bið himneskrar blessunar yður til handa svo að þér megið fyllast lífsorku hins himneska anda í slíkum mæli að þér verðið heiminum uppspretta lífs.
'Abdu'l-Bahá, “Paris Talks”, bls. 98-99

Nái maðurinn árangri í viðskiptum, list sinni eða atvinnu, getur hann aukið líkamlega velferð sína og veitt líkamanum þau þægindi sem hann hefur yndi af. Við sjáum hvarvetna í dag hvernig maðurinn umkringir sig nýtísku þægindum og munaði og lætur allt eftir efnislegri hlið eðlis síns. En gætið þess að leiða hugann ekki um of að líkamlegum hlutum og gleyma því sem sálinni tilheyrir, því efnislegar framfarir upphefja ekki anda mannsins. Fullkomnun í veraldlegum hlutum gleður líkama mannsins en gerir ekki sál hans dýrlega á neinn hátt. Það er hugsanlegt að manni sem hefur öll efnisgæði og lifir mitt í mestu þægindum sem nútíma siðmenning getur veitt sé neitað um gjöf heilags anda sem er mikilvægust allra gjafa. Það er að sönnu gott og lofsvert að þróast efnislega en þegar við gerum það, ættum við ekki að vanrækja það sem er mikilvægara eða loka augunum fyrir hinu guðlega ljósi sem skín mitt á meðal okkar.
'Abdu'l-Bahá, Paris Talks, bls. 62-63

Blessað sé húsið sem hefur eignast blíða miskunn mína, þar sem minning mín er í heiðri höfð og sem hefur göfgast af návist ástvina minna sem kunngert hafa vegsemd mína, haldið fast við náð mína og hlotið þann heiður að syngja ritningargreinar mínar. Vissulega eru þeir hinir upphöfnu þjónar sem Guð hefur vegsamað í Quayyúmu'l-Asmá og öðrum ritningum. Vissulega er hann sá sem allt heyrir, bænheyrandinn, sá sem allt sér.

Bahá'u'lláh, tilvitnun úr “Samantekt um fjölskyldulíf” jan. 1982. Frá Allsherjarhúss réttvísinnar til andlegra þjóðarráða.